Ert þú Siðblindur?

      Ég sá þetta áhugaverða persónuleikapróf,  í ljósi umræðunnar um siðblinda stjórnendur fyrirtækja,  ekki það að þeir séu það allir en möguleikinn á því að sumir geti verið það.   Svolítið skrýtið að vitna í eitthvað úr fréttablaðinu þar sem þetta er nú moggablogg en jæja.  Birti þetta bara einsog það kom fyrir í fréttablaðinu, 13. Febrúar 2010.

Ertu si�blindur?

Ertu samviskulaust sjarmatröll, hættir þér til að ljúga upp úr þurru og áttu erfitt með að setja þig í spor annarra? Þá getur vel verið að þú sért siðblindur, líkt og aðrir 1.500 til 3.000 Íslendingar. Hólmfríður Helga Sigurðardóttir setti saman siðblindupróf, sem tilvalið er að fylla út yfir morgunkaffinu. Þú færð tvö stig fyrir já, eitt ef þú kannast við einhver einkenni og núll fyrir nei.
Ert þú kannski siðblindur? 1.

Ert þú kannski siðblindur?

1. Ertu tungulipur og heillandi?

Líkar fólki yfirleitt vel við þig við fyrstu kynni þar sem þú ert glaðlyndur og drífandi? En getur verið að það sé samt dálítið á varðbergi gagnvart þér vegna þess að þú ert svo vinalegur að það er allt að því smeðjulegt? Áttu auðvelt með að þykjast vita um hvað málin snúast, jafnvel þótt þú hafir ekki minnstu hugmynd um það í raun og veru? Áttu það til að hrósa fólki í hástert og jafnvel daðra við það, en meinar ekkert endilega neitt með því?

2. Hefur þú háleitar hugmyndir um eigið ágæti?

Montarðu þig stundum og ertu ef til vill dálítið hrokafullur? Ertu yfirgangssamur eða upplifir sjálfan þig yfir aðra hafinn? Finnst þér stundum að þú fallir utan við reglurnar sem venjulegt fólk þarf að hlíta? Finnst þér stundum að allir hlutir snúist um þig? Gerir þú lítið úr fjárhagslegum eða persónulegum vandamálum þínum og kennir öðrum um þau, ef þú viðurkennir tilvist þeirra á annað borð?

3. Ertu lygalaupur?

Finnst þér gaman að ljúga? Áttu það til að ljúga jafnvel þegar ekki er nokkur ástæða er til? Og ertu svellkaldur þegar þú er staðinn að lygum, því þú ert viss um að geta snúið þig úr aðstæðunum? Getur verið að saga fortíðar þinnar hafi breyst í tímans rás? Segistu jafnvel hafa átt erfiða æsku, þó að æska þín hafi í reynd verið ósköp eðlileg? Ertu jafnvel stundum ekki viss um hvort það sem þú segir sé sannleikur eða lygi?

4. Notar þú annað fólk?

Gerirðu nánast hvað sem er til að komast yfir kynlíf, peninga eða völd og notar þú annað fólk til að eignast þá hluti sem þú girnist?

5. Ertu samviskulaus?

Sérðu ekki eftir því, ef þú særir annað fólk? Biðstu ef til vill afsökunar en finnur ekki til sektarkenndar? Átt þú stundum bágt með að sjá að þú hafir gert eitthvað rangt? Kennir þú öðrum um vandræði sem þú sjálfur stofnar til?

6. Ertu kaldur og fjarlægur?

Ertu kaldur og fjarlægur, jafnvel þegar dauðsfall verður í fjölskyldu þinni eða einhver nærri þér verður fyrir áfalli? Setur þú ef til vill tilfinningasýningu á svið sem lítið býr að baki? Segist þú vera vinur fólks, en veltir því sjaldan fyrir þér hvernig það hefur það, eða hvernig því vegnar í lífinu? Finnst þér innst inni að tilfinningar séu einungis fyrir vælukjóa?

7. Ertu kvikindislegur?

Gerir þú stundum lítið úr öðru fólki? Áttu það til að beita fjölskyldu þína, vini eða vinnufélaga andlegu ofbeldi með ljótum orðum og athöfnum. Þætti þér lítið mál að reka undirmann þinn, ef þú lentir í þeim aðstæðum, og stæði þér á sama um hversu slæm áhrif það hefði á líf hans að missa vinnuna?

8. Ertu ábyrgðarlaus?

Finnurðu alltaf einhverja afsökun fyrir athöfnum þínum og kennir þú öðrum um þitt eigið klúður? Heldur þú sjálfsvörninni áfram, jafnvel þegar upp hefur komist að þú hefur farið illa að ráði þínu, hvort sem er í einkalífi eða starfi?

Ef þú færð:

1-4 stig ertu ekki siðblindur, þótt þú sért ekki fullkominn.

5-7 stig ertu tiltölulega eðlilegur, þótt þú deilir nokkrum slæmum persónueinkennum með siðblindum.

8-12 stig hefur þú mörg einkenni siðblindu og ættir að íhuga að leita þér hjálpar.

13-16 stig ertu fullkomlega siðblindur og átt þér varla viðreisnar von.

* Stuðst er við prófið Is Your Boss a Psychopath úr viðskiptatímaritinu Fast Company. Tekið skal fram að það er sett fram til gamans og dugar ekki sem raunveruleg greining á siðblindu.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------

      Vona nú að það fái enginn fullt hús stiga, sjálfur fékk ég bara 4 stig,  taldi mig vera tungulipran og á það til að vera ábyrgðarlaus og kenna öðrum um þótt það sé ekki alveg jafn slæmt samt hjá mér og það er orðað þarna.  Kemur samt fram að þetta sé ekkert nákvæmt próf,  segir ekkert endanlega útum það hvort fólk sé raunverulega siðblint eða ekki.  Ég velti því samt fyrir mér,  að þeir sem eru siðblindir og væru kannski haldnir þessum ókostum,  sem margir sem þekkja þá væru sammála um,  myndu þeir sjálfir líta svo á að þeir hefðu þessa ókosti?  Gætu þeir viðurkennt það fyrir sjálfum sér?

 

    Dæmi um siðblindu einmitt í svona fyrirtækjabraski,  er það minnistætt
þegar ég sá heimildarmynd um einokun,  þar sem stórt bandarískt orkufyrirtæki keypti vatnsforðann í einhverju ríki í Afríku þar sem mikil fátækt ríkti,  og vatn hafði áður verið ókeypis og settu þessa fáranlegu dýru verð,  í landi sem enginn gæti borgað það og þegar fólk í örvæntingu sinni fór út þegar rigndi með fötur til að reyna safna einhverju vatni sendi þetta fyrirtæki óeirðalöggunna til að brjóta fólkið á bak og aftur því þeir vildu meina að þeir ættu rigninguna líka,  alveg bara fáranlegt,  maður var bara orðlaus þegar maður sá þetta.  Ef þetta er ekki siðblinda þá veit ég ekki hvað er það.





« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

   Hér er ítarlegri gátlisti fyrir siðblindu:

http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1014155/

Jens Guð, 14.2.2010 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband